Enski boltinn

Þjálfari Kolbeins vill stýra Tottenham eða Liverpool

Frank de Boer er að gera flotta hluti með Ajax.
Frank de Boer er að gera flotta hluti með Ajax.
Frank de Boer, þjálfari hollenska meistaraliðsins Ajax sem Kolbeinn Sigþórsson leikur með, er opinn fyrir því að stýra Tottenham eða Liverpool í framtíðinni en bæði félög hafa reynt að fá hann til starfa.

De Boer, sem er fyrrverandi landsliðsmaður Hollands, tók við Ajax árið 2010 og vann þriðja meistaratitilinn í röð þar í landi síðasta vor.

Honum hafnaði beiðni Tottenham um að taka við liðinu eftir að André Villas-Boas var rekinn fyrr í vetur og þá segir hann að Liverpool hafi einnig haft áhuga á sér áður.

„Þessi tvö félög (Liverpool og Tottenham) eru félög sem ég gæti séð mig stýra í framtíðinni. Saga þessara félaga og möguleikarnir með liðin er eitthvað sem mér líkar,“ segir De Boer í viðtali við BBC.

„Núna er ég samt ekki að hugsa um þessa hluti því ég er ánægður hjá Ajax. Mér liggur ekkert á að fara því enn sem komið er eru menn ánægðir með mín störf.“

De Boer staðfestir í viðtalinu að Liverpool og Tottenham hafi komið að máli við hann í fortíðinni en hann hafnaði eins og áður segir að taka við Tottenham fyrr á þessari leiktíð.

„Tottenham hafði samband við umboðsmann minn þegar Villas-Boas var rekinn en ég sagði nei. Mér fannst þetta ekki réttur tímapunktur,“ segir Frank De Boer.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×