Enski boltinn

Adebayor skaut Tottenham í fimmta sætið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Emmanuel Adebayor var hetja Tottenham þegar að liðið vann mikilvægan 1-0 sigur á Everton í fyrri leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Markið skoraði hann á 65. mínútu en það var úr fyrstu skottilraun heimamanna á markið.

Tottenham fékk þá aukaspyrnu á miðju vallarins og var Kyle Walker fljótur að átta sig og stakk boltanum fram. Adebayor náði að halda Seamus Coleman frá sér og afgreiða boltann laglega í nærhornið með vinstri fæti.

Everton byrjaði betur í leiknum en Leon Osman komst nálægt því að skora í tvígang. Leon Osman komst tvívegis nálægt því að skora en Hugo Lloris, markvörður Tottenham, var vel á verði.

Adebayor hefur nú skorað sex mörk í níu leikjum á tímabilinu en hann hafði nánast ekkert spilað með liðinu áður en Andre Villas-Boas var rekinn um miðja desembermánuð.

Tim Sherwood, sem tók við Villas-Boas, hefur hins vegar veðjað á Tógómanninn og var hann verðlaunaður í dag með þremur stigum.

Tottenham hafði ekki unnið í síðustu tveimur deildarleikjum sínum en liðið er nú komið með 47 stig og komst með sigrinum upp í fimmta sæti deildarinnar, upp fyrir Everton sem situr eftir með 45 stig.

Gylfi Þór Sigurðsson var ekki í leikmannahópi Tottenham í dag vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×