Enski boltinn

Chelsea bíður eftir símtali frá Manchester

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mata gengur af velli í leiknum gegn Southampton.
Mata gengur af velli í leiknum gegn Southampton. Vísir/AFP
Juan Mata er sterklega orðaður við Englandsmeistara Manchester United í fjölmiðlum ytra. Mata hefur þurft að sitja á bekknum hjá Chelsea í vetur meira en kappinn kann við. Guardian er meðal miðla sem fjalla um málið.

Manchester United skortir tilfinnanlega skapandi miðjumann með sjálfstraust og telja sumir að Mata sé lausnin á þeirra vanda. Mata fór á kostum með Chelsea undanfarin tvö tímabil í stöðu fremsta manns á miðju eða afturliggjandi framherja.

Jose Mourinho, stjóri Chelsea, hefur sagt að leikstíll Mata henti ekki í það kerfi sem hann vilji að lið sitt spili. Mata sé ekki nógu vinnusamur þegar andstæðingurinn sé með boltann og þar standi Brasilíumennirnir Oscar og Willian auk Belgans Eden Hazard honum framar. Portúgalinn hefur að sama skapi ítrekað að Mata sé frábær leikmaður sem hann telji að geti aðlagað sig að breyttum aðstæðum á Stamford Bridge.

Spánverjinn 25 ára á á hættu að missa sæti sitt í landsliðshópi Evrópu- og heimsmeistara Spánverja fyrir lokakeppni HM í Brasilíu í sumar fái hann ekki að láta ljós sitt skína. Hann hefur ekki komið við sögu síðan hann fór pirraður af velli í síðari hálfleik á útivelli gegn Southampton á nýársdag.

Talið er að United þurfi að reiða fram allt að 37 milljónir punda til þess að tryggja sér þjónustu Spánverjans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×