Enski boltinn

United úr leik eftir vítaspyrnukeppni | Myndir

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sir Alex Ferguson var á vellinum í kvöld og fór vafalítið sár og svekktur heim til sín.
Sir Alex Ferguson var á vellinum í kvöld og fór vafalítið sár og svekktur heim til sín. Vísir/Getty
Manchester United skoraði aðeins úr einu víti þegar að Sunderland tryggði sér sæti í úrslitaleik ensku deildabikarkeppninnar með sigri á United í vítaspyrnukeppni.

Það var mikil dramatík í leiknum, ekki síst undir lok leiksins. Jonny Evans hafði komið United yfir í venjulegum leiktíma en Sunderland vann fyrri leikinn, 2-1. Samanlögð úrslit voru því 2-2 og þurfti því að framlengja leikinn.

Útivallarmarkið hefði hins vegar tryggt United sæti í úrslitaleiknum hefðu þetta orðið úrslit leiksins að framlengingunni lokinni. En þegar að Phil Bardsley skoraði jöfnunarmark Sunderland eftir hörmuleg mistök David de Gea í marki United á lokamínútu framlengingarinnar virtist öll von úti fyrir heimamenn.

En þá kom Javier Hernandez til skjalanna og hann náði að skora mark aðeins mínútu síðar - þegar framlengingin var komin í uppbótartíma. Niðurstaðan því 2-1 sigur United og samanlögð úrslit 3-3.

Því þurfti vítaspyrnukeppni til að knýja fram úrslit. Þar var aðeins skorað úr þremur spyrnum og var Vito Mannone, markvörður Sunderland, hetjan er hann varði frá Rafael úr fimmtu og síðustu spyrnu heimamanna.

Niðurstaðan er því að Sunderland mætir Manchester City í úrslitaleik ensku deildabikarkeppninnar á Wembley í byrjun næsta mánaðar.

Manchester United komst 1-0 yfir í fyrri hálfleik með marki Jonny Evans eftir undirbúning Danny Welbeck. Síðari hálfleikur var svo opinn og skemmtilegur en þrátt fyrir að United fengi betri færi var Sunderland ávallt líklegt til að jafna metin.

Eftir markalausan síðari hálfleik var gripið til framlengingar.

Lengi vel var lítið um opin færi í framlengingunni og hefði 1-0 sigur dugað United til að komast í úrslitaleikinn.

En á lokamínútu venjulegs leiktíma skoraði Phil Bardsley, fyrrum leikmaður United, ótrúlegt mark fyrir Sunderland. David de Gea missti skot hans inn í eigið net og virtist Bardsley hafa tryggt sínum mönnum sigur.

En leikurinn hélt áfram og náði Javier Hernandez að koma United yfir á nýjan leik með skoti af stuttu færi í slána og inn - og það í uppbótartíma síðari hálfleiks framlengingarinnar. Því þurfti vítaspyrnukeppni til að knýja fram úrslit.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×