Enski boltinn

Fjögurra ára gömul grein Moyes lítur kostulega út í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Moyes, knattspyrnustjóri Manchester United, talar við sína menn fyrir vítakeppnina.
David Moyes, knattspyrnustjóri Manchester United, talar við sína menn fyrir vítakeppnina. Vísir/NordicPhotos/Getty
David Moyes, knattspyrnustjóri Manchester United, upplifði enn ein vonbrigðin sem stjóri United í gær þegar Manchester United féll út úr enska deildabikarnum eftir tap á móti Sunderland eftir vítakeppni. Leikurinn fór fram á Old Trafford og var seinni leikur liðanna í undanúrslitum keppninnar.

Leikmönnum Manchester United tókst aðeins að nýta eitt af fimm vítum sínum í vítakeppninni en þeir Danny Welbeck, Adnan Januzaj, Phil Jones og Rafael klikkuðu allir á vítum og það dugði ekki liðinu að David De Gea varði tvö víti frá Sunderland-mönnum.

Enskir fjölmiðlamenn hafa líkt Moyes við Graham Taylor í morgun og hann sjálfur talaði um það eftir leikinn að þetta væri versta kvöld hans sem stjóri United og að Manchester United liðið hafi ekki átt skilið að komast í úrslitaleikinn.

Til að strá salt í sárin þá hafa menn rifjað upp fjögurra ára gamla grein sem David Moyes skrifaði í Sunday Times áen hann var þá pistlahöfundur blaðsins í kringum HM 2010 í Suður-Afríku.

Fyrirsögn greinarinnar var „How to win a shootout” eða „Hvernig á að vinna vítakeppni." Miðað við skelfilega frammistöðu hans manna í gær er ekki hægt að segja annað en þessi grein Moyes líti ansi kostulega út í dag.

Þeir sem hafa áhuga á að lesa greinina þá er hægt að sjá hana með því að smella hér.

Vísir/NordicPhotos/Getty
Vísir/NordicPhotos/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×