Enski boltinn

Loksins sigur hjá United

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty
David Moyes, stjóri Manchester United, gat andað léttar eftir 2-0 sigur liðsins á Swansea í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Eftir markalausan fyrri hálfleik náði Antonio Valencia að koma United yfir snemma í þeim síðari. Danny Welbeck jók svo forystuna á 59. mínútu og þar við sat.

Þetta var fyrsti sigur United á nýju ári en liðið hafði tapað þremur leikjum í röð í öllum keppnum. Liðið er í sjöunda sæti deildarinnar með 37 stig, níu stigum á eftir toppliði Chelsea.

Swansea vann United í bikarleik liðanna um síðustu helgi en liðið réði ekki við ungstirnið Adnan Januzaj í dag. Belginn ungi lagði upp fyrra mark United og átti einnig þátt í því síðara.

Chris Smalling og Shinji Kagawa fengu góð færi eftir að United komst 2-0 yfir en fóru illa með þau. Það kom þó ekki að sök.

Swansea er í þrettánda sæti ensku deildarinnar með 21 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×