Enski boltinn

Leeds fékk sex mörk á sig | Rautt eftir 91 sekúndu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Það var hart tekið á því í leiknum í dag.
Það var hart tekið á því í leiknum í dag. Nordic Photos / Getty
Leikmenn Sheffield Wednesday fóru illa með gamla stórveldið Leeds United í hádegisleik ensku B-deildarinnar í dag.

Wednesday vann 6-0 stórsigur á Leeds sem missti mann af velli í upphafi síðari hálfleiks þegar að Matt Smith fékk að líta rauða spjaldið. Smith hafði komið inn á sem varamaður í hálfleik og var aðeins búinn að vera inn á í 91 sekúndu þegar hann fékk reisupassann fyrir tæklingu.

Reda Johnson, Atdhe Nuhiu, Connor Wickham, Chris Maguire og Caolan Lavery skoruðu mörk heimamanna í dag en sá síðastnefndi skoraði tvö síðustu mörk leiksins.

Leeds náði aðeins að koma einu skoti að marki Wednesday og hafði Chris Kirkland, markvörður liðsins, því lítið að gera í dag.

Leeds hefur ekki unnið leik í síðustu sex viðureignum sínum og tapaði fyrir D-deildarliði Rochdale í enska bikarnum um síðustu helgi.

Wednesday kom sér úr fallsæti með sigrinum en Leeds er í níunda sætinu með 35 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×