Enski boltinn

Tvö mörk á mínútu komu Arsenal á toppinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Arsenal fagna marki.
Leikmenn Arsenal fagna marki. Mynd/AFP
Arsenal endurheimti toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir 2-1 útisigur á Aston Villa á Villa Park í kvöld. Arsenal hefur nú eins stigs forskot á Manchester City og tveggja stiga forskot á Chelsea sem bæði höfðu unnið sína leiki um helgina.

Bæði mörk Arsenal komu með mínútu millibili í fyrri hálfleiknum en sigurinn var aldrei öruggur ekki síst eftir að Aston Villa minnkaði muninn í seinni hálfleik.

Arsenal var með mikla yfirburði í fyrri hálfleiknum þar sem það var bara eitt lið á vellinum en það var allt annað að sjá til leikmanna Aston Villa í seinni hálfleiknum.

Jack Wilshere kom Arsenal í 1-0 á 34. mínútu eftir sendingu frá Nacho Monreal og Jack Wilshere lagði síðan upp mark fyrir Olivier Giroud aðeins mínútu seinna. Giroud gerði mjög vel í að leggja boltann fyrir sig í teignum.

Átta mínútna töf varð á fyrri hálfleiknum eftir að Serge Gnabry skaut niður Nathan Baker, varnarmann Aston Villa, en Baker var borinn meðvitundarlaus af velli. Hann fékk vægan heilahristing en kom til meðvitundar í búningsklefanum.

Christian Benteke minnkaði muninn með skutluskalla á 76. mínútu og það var því spenna á lokakafla leiksins. Benteke fékk færi til að jafna metin en Arsenal-menn héldu út og fögnuðu sigri.

Jack Wilshere kom Arsenal í 1-0.Mynd/NordicPhotos/Getty
Olivier Giroud skorar hér annað mark Arsenal.Mynd/NordicPhotos/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×