Enski boltinn

Gylfi: Það ætti ekki að breyta liðinu núna

Stefán Árni Pálsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson í leik með Tottenham.
Gylfi Þór Sigurðsson í leik með Tottenham. nordicphotos/getty
Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Tottenham Hotspurs, hefur ekki tekið þátt í undanförnum leikjum með liði sínu og hefur leikmaðurinn verið að glíma við meiðsli.

Gylfi lék á dögunum í auglýsingu fyrir Pepsi, ásamt bestu knattspyrnumönnum heims en hann verður í auglýsingaherferð hjá fyrirtækinu. Í viðtali við blaðamann Fréttablaðsins segir Gylfi að hann vonist til að komast aftur í leikmannahópinn eftir meiðslin.

„Árið leggst vel í mig fyrir utan þessi meiðsli sem ég lenti í í lok árs og ég hef verið að einbeita mér að að losna við. Tottenham er í ágætis málum í deildinni og við erum enn í Evrópukeppninni. Svo byrjar ný undankeppni með landsliðinu þannig að það er margt sem maður hlakkar til að takast á við. Meiðslin eru horfin núna og ég hef verið að æfa síðustu fjóra til fimm daga. Þetta er allt á réttri leið,“ segir Gylfi en næsti leikur liðs hans, Tottenham, er á sunnudag gegn Swansea.

Tottenham er í sjötta sæti en Swansea í því þrettánda í ensku úrvalsdeildinni.

„Auðvitað vonast ég til þess að fá að spila á sunnudag en liðið er búið að vinna tvo til þrjá leiki í röð í deildinni og persónulega finnst mér að ætti ekki að breyta liðinu eftir þessa sigra. En ég vonast allavega til þess að vera í hópnum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×