Enski boltinn

De Bruyne seldur til Wolfsburg

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
De Bruyne í leik með Chelsea.
De Bruyne í leik með Chelsea. Vísir/Getty
Chelsea staðfesti í morgun að belgíski landsliðsmaðurinn Kevin De Bruyne væri genginn til liðs við Wolfsburg í Þýskalandi.

Kaupverðið var óuppgefið en talið vera um sextán milljónir punda - um þrír milljarðar króna. De Bruyne gerði fimm og hálfs árs samning við Wolfsburg.

Hann var keyptur fyrir sjö milljónir punda frá Genk í Belgíu árið 2012 en var í láni hjá Werder Bremen í Þýskalandi allt síðasta tímabil.

De Bruyne sneri svo aftur til Chelsea í sumar eftir að Jose Mourinho tók við liðinu og spilaði í fyrsta leik tímabilsins. En síðan þá hefur hann aðeins komið við sögu í tveimur deildarleikjum til viðbótar.

„Mér samdi mjög vel við Mourinho,“ sagiði De Bruyne í viðtali við belgíska fjölmiðla. „Hann sannfærði mig í sumar um að vera áfram þrátt fyrir að Dortmund hefði lagt fram mjög gott tilboð.“

„Mér gekk vel á undirbúningstímabilinu og spilaði vel í fyrsta leiknum. En ég veit ekki enn af hverju ég missti sætið í liðinu eftir leikinn gegn Manchester United.“

„Ég sé ekki eftir því að hafa farið til Chelsea. Ég spilaði vel hjá Bremen og lærði heilmikið á þessum tíma.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×