Enski boltinn

Rooney og Van Persie ekki með gegn Chelsea

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Wayne Rooney í leik með United.
Wayne Rooney í leik með United. Vísir/Getty
David Moyes hefur staðfest að þeir Wayne Rooney og Robin van Persie verða ekki með Manchester United gegn Chelsea á morgun.

Rooney er kominn aftur til Englands eftir nokkurra daga dvöl í Egyptalandi þar sem hann var í endurhæfingu vegna nárameiðsla sinna.

„Hann er kominn til baka og er ferskur. En hann er ekki tilbúinn fyrir Chelsea,“ sagði knattspyrnustjórinn Moyes við enska fjölmiðla.

„Hann er að æfa á grasi, er að hlaupa og lítur nokkuð vel út. Hann fékk smá frí og gerði styrktaræfingar fyrir nárann auk þess sem hann fékk nokkra daga í sólinni. Það kemur honum vonandi til góðs,“ bætti Moyes við.

Robin van Persie hefur misst af síðustu níu leikjum United vegna meiðsla í læri en Moyes vonast til að sóknarmaðurinn öflugi geti byrjað að æfa aftur eftir helgina.

„Hann er mikilvægur leikmaður og við höfum saknað hans. Hann kemur vonandi sem fyrst til baka,“ sagði Moyes.

United mætir Sunderland í síðari viðureign liðanna í undanúrslitum ensku deildabikarkeppninnar í næstu viku en óvíst er hvort að Moyes geti notað þá Rooney og Van Persie í þeim leik.

Chelsea og United eigast við klukkan 16.00 á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×