Enski boltinn

Buðu stuðningsmönnum andstæðingsins á leikinn

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Stuðningsmenn Burton voru hressir á leiknum.
Stuðningsmenn Burton voru hressir á leiknum. Mynd/Gettyimages
Óhætt er að segja að stuðningsmenn Bournemouth í fyrstu deild ensku deildarkeppninnar hafi unnið óvenjulegt góðverk í vikunni.

Eftir að leik liðsins gegn Burton í enska bikarnum var upphaflega frestað á síðustu stundu buðu stuðningsmenn Bournemouth stuðningsmönnum Burton upp á fríar rútuferðir á leikinn á  nýjum leikdegi.

Eftir að hafa ferðast tæplega 500 kílómetra til að sjá leik Burton gegn Bournemouth var leik liðanna frestað á síðustu stundu þrátt fyrir að stuðningsmenn Burton væru mættir á svæðið. Það var því löng fýluferð heim fyrir stuðningsmenn Burton.

Upphaflega ætluðu stuðningsmenn Bournemouth að safna fyrir einni rútu fyrir stuðningsmenn Burton en fljótlega var kominn nægur peningur til að borga fyrir fjórar. Rúturnar voru þakklætisvottur stuðningsmanna Bournemouth fyrir góða framkomu stuðningsmanna Burton í kringum leik liðanna fyrir fjórum árum þrátt fyrir úrslitin. Liðin mættust í umspili upp á sæti í annarri deild ensku deildarkeppninnar þar sem Bournemouth sigraði.

Bournemouth sigraði leikinn á þriðjudaginn örugglega 4-1 og tekur á móti Liverpool í fjórðu umferð ensku bikarkeppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×