Enski boltinn

Allardyce vonsvikinn að missa af Traore

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Lacina Traore
Lacina Traore Gettyimages
Sam Allardyce, knattspyrnustjóri West Ham viðurkenndi eftir leik liðsins í gær að hafa misst af Lacina Traore til Everton. Traore er stór og sterkur 23 ára framherji frá Fílabeinsströndinni.

West Ham hefur verið á höttunum eftir Traore undanfarnar vikur og virtust vera að ganga frá kaupunum en tilboð Everton virðist hafa snúið hug Traore á lokametrunum. Hamrarnir voru búnir að sækja um atvinnuleyfi eftir að hafa samið um kjör við Monaco fyrir Traore sem gekk til liðs við Monaco frá Anzhi Makhachkala fyrir aðeins tveimur vikum.

„Okkur gengur illa að styrkja liðið, föstudagurinn var hræðilegur þegar ég hélt að Traore væri að skrifa undir hjá okkur og þá komst ég að því að hann væri að semja við annað lið. Við misstum af honum á lokametrunum,“

West Ham er í botnbaráttu í ensku úrvalsdeildinni og hefur slakt gengi undanfarnar vikur aukið pressuna á Allardyce. Liðið hefur verið orðað við Joleon Lescott og Thomas Vermaelen en Allardyce taldi að Belginn stóri og stæðilegi væri ekki til sölu.

„Ég held að Arsenal geti ekki misst hann núna, þeir eru að berjast á mörgum vígstöðum og hann er fyrsti maður inn ef miðvörður meiðist. Ég held að við munum ekki geta fengið leikmann í hans gæðaflokki en við gerum það besta sem við getum,“ sagði Allardyce.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×