Enski boltinn

Aron Einar: Við ætlum að gefa allt í þetta

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron Einar í baráttu við Morgan Schneiderlin, leikmann Southampton, á öðrum degi jóla.
Aron Einar í baráttu við Morgan Schneiderlin, leikmann Southampton, á öðrum degi jóla. Nordic Photos / Getty Images
Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði Íslands í knattspyrnu, segir að leikmenn Cardiff ætli að gefa toppliði Arsenal ekkert eftir þegar liðin mætast í Lundúnum í dag.

„Það verður frábær reynsla að fara á Emirates-leikvanginn og mæta toppliði ensku úrvalsdeildarinnar,“ sagði Aron Einar í viðtali sem birtist á heimasíðu Cardiff.

„Við vitum að Arsenal er nógu sterkt til að halda toppsætinu enda er liðið eingöngu með leikmenn í heimsklassa. Maður á ekki von á öðru af toppliðinu,“ bætti hann við.

„Þeir verða á heimavelli og ætla sér auðvitað sigur. En við þurfum líka á stigunum að halda og þeir fá ekkert frítt frá okkur. Við ætlum að gefa allt í þetta.“

Cardiff er í sextánda sæti deildarinnar með átján stig en liðið gerði 2-2 jafntefli við botnlið Sunderland um helgina eftir að hafa misst niður tveggja marka forystu.

„Maður vill aldrei fá á sig jöfnunarmark svona seint í leiknum eins og við gerðum. En við verðum að læra af þessu, standa saman og líta fram á veginn,“ sagði Aron Einar.

Leikurinn hefst klukkan 15.00 en heil umferð fer fram í ensku úrvalsdeildinni í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×