Enski boltinn

City skoraði þrjú í rigningunni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Manchester City tyllti sér á topp ensku úrvalsdeildarinnar, að minnsta kosti um stundarsakir, eftir 3-2 sigur á Swansea á útivelli í dag.

Þetta var fyrsti leikur dagsins í deildinni en Arsenal getur endurheimt toppsætið með sigri á Cardiff síðar í dag.

Fernandinho kom City yfir með ágætu skoti snemma leiks og skoraði þar með fyrsta mark ársins í ensku úrvalsdeildinni.

Swansea sótti í sig veðrið eftir þetta og Wilfried Bony náði að jafna metin í uppbótartíma fyrri hálfleiks með laglegu skallamarki. Bony virtist hafa verið rangstæður en markið stóð engu að síður.

Yaya Toure kom svo City yfir á 58. mínútu með góðu skoti úr teignum og Aleksandar Kolorov jók muninn stuttu síðar eftir laglegan sprett fram hálfan völlinn.

Bony var þó ekki búinn að segja sitt síðasta og klóraði í bakkann fyrir heimamenn með flottu marki í uppbótartíma.

City er nú með 44 stig í efsta sæti deildarinnar en Swansea er sem stendur í ellefta sæti með 21 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×