Enski boltinn

Chelsea eltir toppliðin eins og skugginn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Fernando Torres, Willian og Oscar voru á skotskónum þegar Chelsea sótti þrjú stig í ferð sinni suður til Southampton í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Eftir markalausan fyrri hálfleik fundu bláklæddu gestirnir leiðina í markið í þrígang á tuttugu mínútna kafla í síðari hálfleik.

Fyrst skoraði Spánverjinn Fernando Torres á 62. mínútu eftir klaufagang Kelvin Davis í marki Southampton. Davis sló fyrirgjöf Oscar í stöngina og Torres fylgdi á eftir.

Willian skoraði svo með þrumuskoti á 71. mínútu og fagnaði með hnérennsli af dýrari gerðinni á blautu grasinu á St. Mary's. Oscar fékk svo sendingu inn fyrir vörnina á 82. mínútu og kláraði færið vel.

Chelsea er eftir sigurinn í þriðja sæti með 43 stig, stigi á eftir Man City og tveimur á eftir toppliði Arsenal. Southampton er í 9. sæti með 27 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×