Enski boltinn

Everton bjargaði stigi | Úrslit dagsins

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Assaidi fagnar marki sínu í dag.
Assaidi fagnar marki sínu í dag. Nordic Photos / Getty
Leighton Baines náði að bjarga stigi fyrir Everton sem mátti sætta sig við 1-1 jafntefli gegn Stoke á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Oussama Assaidi kom Stoke yfir á 49. mínútu en hann er lánsmaður frá Liverpool, erkifjendum Everton. Baines jafnaði úr vítaspyrnu sem var dæmd eftir að Jermaine Pennant braut á Leon Osman.

Með jafnteflinu féll Everton niður í fimmta sæti deildarinnar og niður fyrir Liverpool, sem vann 2-0 sigur á Hull á sama tíma.

Arsenal endurheimti toppsæti deildarinnar með 2-0 sigri á Cardiff þar sem bæði mörkin voru skoruð undir lok leiksins. Þá er Chelsea enn í þriðja sætinu eftir 3-0 sigur á Southampton.

Newcastle tapaði fyrir West Brom, 1-0, og tapaði þar með sínum öðrum leik í röð. West Brom hafði ekki unnið í níu leikjum í röð. Newcastle var betri aðilinn í leiknum þar til að Mathieu Debuchy var rekinn af velli fyrir að tækla Claudio Yacob.

Crystal Palace er komið í fallsæti eftir 1-1 jafntefli gegn Norwich á heimavelli, þrátt fyrir að gestirnir hafi misst Leroy Fer af velli með rautt spjald.

Þá situr Sunderland sem fastast í botnsæti deildarinnar en liðið tapaði fyrir Aston Villa, 1-0, með marki Gabriel Agbonlahor. Þetta var fyrsti sigur Villa í síðustu sex leikjum liðsins.

Dimitar Berbatov tryggði Fulham sigur gegn West Ham, 2-1, á heimavelli. Þetta var hans fimmta mark á tímabilinu og dugði til að koma Fulham úr fallsæti. Mohamed Diami hafði komið West Ham yfir snemma leiks en Steve Sidwell jafnaði metin.

Kevin Nolan, fyrirliði West Ham, var rekinn af velli undir lok fyrri hálfleiks fyrir brot á Fernando Amorebieta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×