Enski boltinn

Tottenham komið í þriggja stiga áskrift á Old Trafford

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordic Photos / Getty
Manchester United féll á enn einu prófinu á heimavelli sínum í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í vetur þegar Tottenham vann 2-1 sigur.

Leikur liðanna á Old Trafford var nokkuð fjörugur og skemmtilegur. Emmanuel Adebayor kom gestunum yfir með snyrtilegu skallamarki eftir fyrirgjöf Danans Christian Erikssen á 34. mínútu. Gestirnir fengu betri færi í fyrri hálfleiknum og forystan verðskulduð.

Gylfi Þór Sigurðsson var ekki í leikmannahópi Spurs vegna meiðsla en það kom ekki að sök hjá gestunum. Eriksen nýtti sér sofandahátt Antonio Valencia á 66. mínútu og skallaði boltann í netið af stuttu færi og kom Spurs í 2-0.

Fagnaðarlæti Tim Sherwood og lærisveina hans vörðu þó aðeins í nokkrar sekúndur því Danny Welbeck minnkaði muninn strax í næstu sókn. Reiknuðu einhverjir með því að sígildur viðsnúningur af hendi United væri handan við hornið en svo var ekki.

Þeir rauðklæddu komust nokkrum sinnum nærri því að skora. Danny Welbeck rann til í dauðafæri inni á vítateig, Nemanja Vidic skallaði yfir og Hugo Lloris varði skot Javier Hernandez af stuttu færi. Allt kom fyrir ekki og Tottenham vann sinn annan sigur í röð á Old Trafford í deildinni. Liðið vann 3-2 sigur í viðureign liðanna á sama stað í fyrra. Fram til þess hafði Lundúnaliðið ekki unnið í deildinni á Old Trafford frá árinu 1989.

Tottenham hefur nú 37 stig í 6. sæti en United 34 stig í 7. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×