Enski boltinn

Wenger hefur trú á Solskjær

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, telur að Ole Gunnar Solskjær hafi það sem til þurfi til að halda Cardiff uppi í ensku úrvalsdeildinni.

Solskjær var viðstaddur leik Arsenal og Cardiff á Emirates-leikvanginum í gær en þar unnu heimamenn 2-0 sigur og héldu þar með toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Cardiff er í sautjánda sæti eftir tapið og aðeins einu stigi frá fallsæti. Aron Einar Gunnarsson er á mála hjá liðinu og kom inn á sem varamaður í gær.

Vincent Tan, eigandi Cardiff, ákvað að reka Malky Mackay á föstudaginn síðastliðinn og í gær sendi hann einkaþotu sína til Noregs til að sækja Solskjær - sem á þó enn eftir að ganga frá formlegum samningum við Cardiff.

„Þeir spiluðu eins og þeir vissu að Solskjær væri í stúkunni,“ sagði Wenger um frammistöðu leikmanna Cardiff í gær. „Ef Solskjær getur kennt þeim að nýta færin eins og hann gerði sjálfur þá munu þeir halda sætu sínu í deildinni. Liðið hefur fulla getu til þess.“

„Þetta er gott tækifæri fyrir Solskjær og það sem það sem maður þarf að fá þegar maður er ungur knattspyrnustjóri. Hann býr þegar yfir reynslu af því að þjálfa í Noregi og hann var sjálfur klókur leikmaður. Það mun hjálpa honum.“

Mörkin úr leiknum í gær má sjá hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×