Enski boltinn

Gylfi ekki með þegar Arsenal sló Tottenham út úr bikarkeppninni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Santi Cazorla fagnar hér marki sínu.
Santi Cazorla fagnar hér marki sínu. Mynd/AFP
Gylfi Þór Sigurðsson spilar ekki í ensku bikarkeppninni á þessu tímabili þar sem að Tottenham er úr leik í keppninni eftir 2-0 tap á móti erkifjendunum í Arsenal í stórleik þriðju umferðar enska bikarsins.

Santi Cazorla og Tomáš Rosický skoruðu mörk Arsenal í leiknum en Tottenham-menn áttu erfitt uppdráttar á Emirates-leikvanginum í kvöld og sigur Arsenal var öruggur.

Gylfi Þór Sigurðsson missti af þriðja leiknum í röð vegna meiðsla og hefur ekki enn náð því að spila leik eftir að hann var kosinn Íþróttamaður ársins.

Santi Cazorla skoraði fyrra markið á 31. mínútu eftir frábæran undirbúning Serge Gnabry. Gnabry fékk þá að athafna sig fyrir framan vítateiginn og losaði um Spánverjann sem afgreiddi boltann í markið.

Tomáš Rosický bætti við öðru marki á 62. mínútu eftir skelfileg mistök hjá Danny Rose í öftustu línu Tottenham-varnarinnar. Tomas Rosický stal af honum boltanum, slapp í gegn og vippaði boltanum síðan laglega yfir Hugo Lloris í markinu.

Arsenal er á toppnum í ensku úrvalsdeildinni og nú komið í 32 liða úrslit enska bikarsins. Liðið er einnig í eldlínunni í Meistaradeildinni og það verður því nóg að gera hjá lærisveinum Arsene Wenger á næstunni.

Tim Sherwood er ekki búinn að stýra Tottenham-liðinu lengi en á þeim tíma hefur liðið dottið út úr báðum bikarkeppnunum því liðið tapaði fyrir West Ham í deildabikarnum í hans fyrsta leik. Tottenham hefur aftur á móti náð í 10 af 12 mögulegum stigum undir hans stjórn í ensku úrvalsdeildinni.





Santi Cazorla skorar hér markið sitt.Mynd/NordicPhotos/Getty
Mynd/NordicPhotos/Getty
Tomáš Rosický skorar hér markið sitt.Mynd/NordicPhotos/Getty
Mynd/NordicPhotos/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×