Enski boltinn

Manchester United án bæði Rooney og van Persie um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney og Robin van Persie.
Wayne Rooney og Robin van Persie. Mynd/NordicPhotos/Getty
Ensku meistararnir í Manchester United verða án beggja stjörnuleikmanna sinna þegar liðið mætir Swansea City í þriðju umferð ensku bikarkeppninnar á morgun.

Wayne Rooney er meiddur á nára og Robin van Persie er enn að glíma við tognun í læri. Manchester United liðið er einnig án Ashley Young sem er meiddur á öxl.

Wayne Rooney hefur haldið uppi sóknarleik Manchester United á þessu tímabili en hann er með 9 mörk og 11 stoðsendingar í 17 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni. Manchester United er með 3 stig og 1 mark í þeim þremur deildarleikjum sem Rooney hefur misst af á tímabilinu.

Robin van Persie hefur ekki spilað með Manchester United síðan í Meistaradeildinni 10. desember og er búinn að missa af átta af síðustu níu deildarleikjum liðsins. Van Persie, sem var markakóngur á síðasta tímabili, hefur skorað 7 mörk í 11 deildarleikjum á leiktíðinni.

Manchester United hefur bara verið án beggja leikmannanna í einum deildarleik á leiktíðinni (af 20) og þá tryggði Danny Welbeck liðinu 1-0 sigur á Norwich.

Mynd/NordicPhotos/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×