Enski boltinn

Solskjær: Fullkomin byrjun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær fagnar sigri.
Ole Gunnar Solskjær fagnar sigri. Mynd/NordicPhotos/Getty
Norðmaðurinn Ole Gunnar Solskjær stýrði Cardiff City til sigurs í dag í fyrsta leiknum sínum sem knattspyrnustjóri Arons Einars Gunnarssonar og félaga. Cardiff vann þá 2-1 endurkomusigur á útivelli á móti Newcastle í 3. umferð enska bikarsins.

Það var við hæfi að varamenn liðsins tryggðu Solskjær sigur í fyrsta leiknum sem stjóri í Englandi en Solskjær er þekktastur fyrir að skora eftir að hafa komið inná sem varamaður.

„Það er frábært að ná að snúa við leiknum. Ég hef 90 mínútur til að nota fjórtán leikmenn. Ég valdi liðið sem ég taldi myndi valda Newcastle mestum erfiðleikum," sagði Ole Gunnar Solskjær við Sky Sports en Aron Einar spilaði allan leikinn.

Craig Noone skoraði með fyrstu snertingu eftir að hafa komið inná sem varamaður og annar varamaður, Fraizer Campbell, skoraði síðan sigurmarkið tíu mínútum fyrir leikslok.

„Ég varð að bíða með Steven (Caulker), Fraizer (Campbell) og Craig (Noone) á bekknum því þeir voru að glíma við smá meiðsli. Það kom sér vel að lokum. Þú vilt eiga menn inni á bekknum sem geta haft áhrif á leikinn þegar þeir koma inn," sagði Solskjær.

„Þetta á ekki að snúast um mig en þetta er fullkominn byrjun á nýjum tímum hjá Cardiff. Strákarnir í liðinu hafa þurft að venjast miklum breytingum að undanförnu og það er gott fyrir þá að byrja á sigri í bikarnum. Það er aldrei auðvelt að koma hingað upp eftir hvað þá þegar þú lendir 1-0 undir. Það eru ekki mörg lið sem koma til baka á þessum velli og það þarf mikinn karakter til að ná því," sagði Solskjær sáttur.

Mynd/NordicPhotos/Getty
Mynd/NordicPhotos/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×