Enski boltinn

Moyes: Erum líka að spila gegn dómurunum

Moyes þakkar áhorfendum fyrir stuðninginn í kvöld.
Moyes þakkar áhorfendum fyrir stuðninginn í kvöld. nordicphotos/getty
Það eru heil 82 ár síðan Man. Utd byrjaði nýtt ár með því að tapa fyrstu þrem leikjum sínum. Fyrir þá sem eru ekkert sérstakir í stærðfræði þá gerðist það árið 1932 og svo núna 2014.

Þetta er líka í fyrsta skipti síðan í maí árið 2001 sem liðið tapar þrem leikjum í röð. Þá var liðið orðið meistari og leikmenn að taka því fullrólega. Man. Utd tapaði 2-1 fyrir Sunderland í deildabikarnum í kvöld.

„Þetta er erfitt en það er ekkert annað í stöðunni en að halda áfram,“ sagði niðurlútur stjóri Man. Utd, David Moyes, eftir leik en pressan á hann er orðin ansi mikil.

„Við gerðum svo sem ekki margt vitlaust í leiknum. Ég hélt að dómarinn væri að dæma á Sunderland er þeir fá aukaspyrnuna í fyrra markinu. Það var hræðileg ákvörðun hjá honum,“ sagði Moyes en hann er farinn að kenna dómaranum ansi mikið um þessa dagana.

„Við erum allir að hlæja að dómurunum núna. Það lítur út fyrir að við séum að spila gegn dómurunum og andstæðingunum þessa dagana.“

Moyes hrósaði sínum mönnum þó svo þeir hafi verið slakir líkt og svo oft áður.

„Leikmennirnir og áhorfendur stóðu sig frábærlega og strákarnir áttu meira skilið úr þessum leik. Þetta er samt bara fyrri leikurinn og ég bíð spenntur eftir þeim seinni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×