Innlent

„Það er allt grasserandi í ágreiningi á Íslandi“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Fyrirgefðu ehf. sérhæfir sig í sáttamiðlun.
Fyrirgefðu ehf. sérhæfir sig í sáttamiðlun.
Fyrirtækið Fyrirgefðu ehf. hefur opnað nýja vefsíðu en fyrirtækið sérhæfir sig í sáttamiðlun, lögfræðiráðgjöf, ímyndarsköpun, sálfræðiaðstoð og vinnuvernd. Kynningarmyndband, sem sjá má á síðu fyrirtækisins, hefur farið eins og eldur um sinu á veraldarvefnum undanfarna sólahringa.

Hafsteinn Gunnar Hafsteinsson, sáttamiðlari, er einn af stofnendum fyrirtækisins en hann er með mastersgráðu í átakastjórnun. Hafsteinn var áður með fyrirtækið Sáttamiðlun ehf. Nýja fyrirtækið hefur starfssemi í febrúar.

„Ég var upphaflega með Sáttamiðlun ehf. og var svona að reyna markaðssetja það en enginn virtist hafa áhuga á þeirri hugmynd,“ segir Hafsteinn Gunnar, í samtali við Vísi.

„Því næst fór ég að hugsa hvað gæti fengið fólk til að kveikja á því að ná sáttum og leysa ágreining og átök í samfélaginu.“

Hafsteinn segist hafa skoðað vel hvað einkennir í raun sáttamiðlun og komist að þeirri niðurstöðu að það væri í raun fyrirgefningin.

„Helstu viðskiptavinir í svona fyrirtæki eru einstaklingar og fyrirtæki. Það er oft ágreiningur á milli hjóna eða innan fyrirtækja. Stundum kemur upp ágreiningur innan hljómsveita eða nágrannadeilur.“

„Nú er bara spurning hvort mér hafi tekist að ná athygli Íslendinga. Ég veit að það er allt grasserandi í ágreiningi á Íslandi. Það er bara spurning hvort fólk hafi almennt áhuga á því að leysa sín vandamál.“

Hér að neðan má sjá kynningarmyndband Fyrirgefðu ehf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×