Sport

ESPN spáir því að Gunnar Nelson slái í gegn í ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnar Nelson.
Gunnar Nelson. Mynd/NordicPhotos/Getty
Bardagakappinn Gunnar Nelson er að koma til baka eftir að hafa rifið liðþófa í hné á síðasta ári og fyrsti bardagi hans eftir meiðslin verður UGC-bardagi í mars á móti Omari Akhmedov frá Rússlandi.

ESPN hefur mikla trú á íslenska víkingnum því hann er einn af þeim þremur sem þessi virti bandaríska íþróttafjölmiðill spáir að muni slá í gegn í blönduðum bardagalistum á árinu 2014.

Gunnar Nelson er að fara í sinn þriðja UFC-bardaga í London 8. mars en hann vann þá Jorge Santiago (febrúar 2013) og DeMarques Johnson (2012) í fyrstu tveimur bardögum sínum. Gunnar Nelson hefur ekki enn tapað bardaga.

Brett Okamoto skrifar um þrjár vonarstjörnur sínar í blönduðum bardagaíþróttum (MMA) og er Gunnar einn þeirra. Okamoto líkir Íslendingnum við Lyoto Machida en segir jafnframt að Gunnar sé betri í gólfinu.

Okamoto óskar þess reyndar að Gunnar væri að keppa í þyngdarflokknum fyrir neðan en er viss um að Gunnar vinni marga bardaga á þessu ári.

Það er hægt að sjá grein Brett Okamoto á ESPN með því að smella hér.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.