Enski boltinn

Johnson bjargaði stigi fyrir Sunderland

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Sunderland náði að bjarga jafntefli eftir skelfilega byrjun gegn Southampton á heimavelli í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Jay Rodriguez kom gestunum yfir með góðu skoti utan vítateigs strax á fjórðu mínútu og varnarmaðurinn Dejan Lovren jók forysutna með marki eftir hornspyrnu á 31. mínútu.

Fabio Borini minnkaði þó muninn fyrir Sunderland aðeins einni mínútu síðar en fram að því hafði Sunderland nánast ekkert gert af viti í leiknum.

Adam Johnson, sem skoraði þrennu í 4-1 sigri Sunderland um síðustu helgi, skoraði svo jöfnunarmark Sunderland á 71. mínútu. Hann átti stoðsendinguna í fyrra marki sinna manna í leiknum og hefur því komið að öllum sex síðustu mörkum Sunderland.

Southampton var sterkari aðilinn í leiknum lengi vel en fór illa með mörg færi. Liðið varð þar að auki fyrir áfalli er þeir Gaston Ramirez og Lovren meiddust en þeir voru báðir bornir af velli í dag.

Sunderland er enn í fallsæti en er nú komið með átján stig, jafn mörg og West Ham og Cardiff. Crystal Palace er neðst með sautján stig. Southampton er enn í níunda sæti en nú með 31 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×