Enski boltinn

Negredo með þrennu í stórsigri Manchester City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Spánverjinn Álvaro Negredo fagnar marki í kvöld.
Spánverjinn Álvaro Negredo fagnar marki í kvöld. Mynd/NordicPhotos/Getty
Manchester City er komið með annan fótinn í úrslitaleik enska deildarbikarsins eftir 6-0 stórsigur á West Ham í fyrri undanúrslitaleik liðanna á Etihad-leikvanginum í Manchester í kvöld.

Spánverjinn Álvaro Negredo skoraði þrennu á fyrstu 50 mínútum leiksins og átti auk þess stoðsendinguna á Yaya Touré í þriðja marki liðsins. Edin Džeko skoraði síðan tvö síðustu mörkin. Mörkin hjá Álvaro Negredo voru fjögur flott vinstri fótarskot, allt alvöru afgreiðslur.

West Ham tapar nú illa í hverjum leik en lærisveinar Sam Allardyce töpuðu 5-0 á móti b-deildarliðið Nottingham Forest í ensku bikarkeppninni um síðustu helgi. Allardyce tefldi þá fram hálfgerðu unglingaliði en útkoman var engu að síður sú sama hjá liðinu í kvöld. Sæti Sam Allardyce hlýtur að hafa hitnað enn frekar eftir þennan skell í kvöld.

Álvaro Negredo skoraði fyrsta markið með frábæru viðstöðulausu skoti á 12. mínútu eftir sendingu Yaya Toure og staðan var orðin 2-0 á 26. mínútu þegar Negredo skoraði eftir laglega stungusendingu frá Edin Dzeko.

Yaya Toure skoraði þriðja markið á 40. mínútu eftir að fengið nægan tíma til að athafna sig og Álvaro Negredo innsiglaði síðan þrennu sína á 49. mínútu eftir að hálf-varið skot frá David Silva barst til hans.

Edin Dzeko skoraði fimmta markið á 60. mínútu eftir laglega sókn og fyrirgjöf frá Gael Clichy og bætti síðan við lokamarkinu á 89. mínútu með frábæru skoti úr teignum. Edin Dzeko hefur þar með skorað í öllum deildarbikarleikjum City í vetur, samtals sex mörk.

Manchester United tapaði 1-2 á móti Sunderland í hinum undanúrslitaleiknum í gær en United á seinni leikinn sinn á heimavelli sínum Old Trafford. Það eru því enn líkur á Manchester-slag í úrslitaleiknum á Wembley.

Mynd/NordicPhotos/Getty
Mynd/NordicPhotos/Getty
Mynd/NordicPhotos/Getty
Mynd/NordicPhotos/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×