Lífið

Ísland í dag - Verður stærsta sjónvarpsþáttaröð sem gerð hefur verið hér á landi

Sindri Sindrason skrifar
RVK Studios, Baltasar Kormákur og Stöð 2 framleiða nýja sjónvarpsþáttaröð sem fer í gang vorið 2016 og mun heita Katla. Um er að ræða tíu þátta röð sem mun kosta á annan milljarð íslenskra króna og verður þar af leiðandi um stærstu og dýrustu þáttaröð sem gerð hefur verið hér á landi.

Baltasar Kormákur sagði í viðtali við Sindra Sindrason í kvöld að tökur væru ekki hafnar, ekki væri búið að ráða leikara en útilokaði þó ekki að erlendar stórstjörnur yrðu með. Þá útilokaði hann ekki að hann myndi sjálfur leika í þáttaröðinni.

Jöklar, eldfjöll og hálendið í aðalhlutverki

Baltasar sagði að áskrifendur Stöðvar 2 megi búast við einstakri framleiðslu enda efnistökin eitthvað sem aldrei hefur verið gert áður hér á landi. Hér er á ferðinni spennuþáttaröð með mystísku ívafi um unga björgunarsveitakonu sem tekst á við drauga fortíðar í miðjum langvarandi nátturuhamförum. Sögusviðið er jöklar, eldfjöll og hálendi Íslands.

Baltasar og Magnús Viðar Sigurðsson framleiða ásamt Stöð 2. Handritið skrifa þeir Sigurjón Kjartansson, Ólafur Egilsson og Guðmundur Oddur Magnússon. Katla er umfangsmesta framleiðsluverkefni Stöðvar 2 frá upphafi og að sögn Baltasars er nú þegar mikill áhugi erlendis frá sem er óvenjulegt þar sem þáttaröðin er enn á handritastigi. Hér fyrir ofan má sjá viðtalið við Baltasar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.