Innlent

Færeyingar vilja lendingarleyfi

BAe-þota Atlantic Airways lendir á Reykjavíkurflugvelli. Færeyingar hætta að nota þessa vél í ágúst.
BAe-þota Atlantic Airways lendir á Reykjavíkurflugvelli. Færeyingar hætta að nota þessa vél í ágúst. Stöð 2/Kristinn.
Færeyska flugfélagið Atlantic Airways vonast til þess að fá leyfi til að lenda Airbus 319-vélum sínum á Reykjavíkurflugvelli.

Flugfélagið mun hætta notkun gamallar BAe-þotu, einu vélarinnar sem hefur leyfi til lendingar í Reykjavík, í ágúst næstkomandi.

Undanfarnar þrjár vikur hefur allt flug frá Færeyjum farið um Keflavíkurflugvöll á meðan British Aerospace-vél Atlantic undirgekkst viðamikla skoðun.

„Við myndum gjarnan vilja halda Færeyingum hér áfram eins og verið hefur undanfarna áratugi,“ sagði Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.

Flugmálayfirvöld athuga nú hvort veita eigi Airbus 319-vélum Atlantic leyfi til að lenda í Reykjavík.

Atlantic tekur í sama streng og Flugfélag Íslands, enda eigi stærstur hluti farþeganna erindi til Íslands en minnihlutinn sé í framhaldsflugi frá Keflavík.

„Já, ef þeir fá leyfi til þess þá vilja þeir gjarnan fljúga til Reykjavíkur,“ segir Kurt Fossaberg, flugstjóri hjá Atlantic Airways. Hann segir flugbrautirnar vera nægilega langar til þess að Airbus- vélar félagsins geti lent á þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×