Fótbolti

Frábært sigurmark hjá Berbatov

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dimitar Berbatov fagnar með liðsfélögum sínum.
Dimitar Berbatov fagnar með liðsfélögum sínum. Vísir/AFP
Búlgarinn Dimitar Berbatov hélt titilvonum Mónakó-liðsins á lífi í dag þegar hann skoraði eina mark leiksins í nágrannslag AS Monaco og Nice í frönsku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Berbatov skoraði sigurmarkið strax á fimmtu mínútu leiksins þegar þessi 33 ára fyrrum leikmaður Fulham, Manchester United og Tottenham, tók laglega við boltanum áður en hann lyfti honum glæsilega yfir markvörð Nice.

Mónakó kom upp úr b-deildinni síðasta vor en er að berjast við Paris St-Germain um franska meistaratitilinn í ár. PSG er samt í mjög góðri stöðu, með sjö stiga forskot og á að auki leik inni á AS Monaco þegar fjórar umferðir eru eftir.

Paris St-Germain á möguleika á því að tryggja sér franska meistaratitilinn um næstu helgi ef PSG vinnur frestaðan leik við Evian á miðvikudaginn og svo að annaðhvort tapi Monaco stigum á laugardaginn eða að Paris St-Germain vinni Sochaux daginn eftir.

Dimitar Berbatov hefur skorað 3 mörk í 9 deildarleikjum með AS Monaco síðan að hann kom til liðsins á láni frá Fulham í janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×