Fótbolti

Gunnleifur sýndi ákvörðuninni skilning

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gunnleifur Gunnleifsson.
Gunnleifur Gunnleifsson.
Gunnleifur Gunnleifsson á enn góðan möguleika á að halda sæti sínu í A-landsliði karla þrátt fyrir að hafa ekki verið valinn í hópinn fyrir æfingaleikinn gegn Svíum síðar í mánuðinum.

Þetta sagði Guðmundur Hreiðarsson, markvarðaþjálfari íslenska landsliðsins, á blaðamannafundi KSÍ í morgun. Landsliðshópurinn fyrir leikinn gegn Svíum var þá kynntur en liðin mætast í Abú Dabí þann 21. janúar næstkomandi.

„Við vitum fyrir hvað Gunnleifur stendur,“ sagði Guðmundur á fundinum í morgun. „Við töluðum við hann og hann sýndi þessari ákvörðun skilning. Við þurfum ekki á honum að halda í þessum leik og ákváðum að nýta tækifærið til að gefa ungum markverði tækifæri.“

Rúnar Alex Rúnarsson, leikmaður KR og U-21 landsliðs Íslands, var valinn ásamt Hannesi Þór Halldórssyni sem hefur verið aðalmarkvörður Íslands að undanförnu.

„Það má þó segja um Gulla að hann er einn mikilvægasti leikmaðurinn í okkar liði, þó svo að hann hafi ekki spilað leik í síðustu undankeppni. Hann gegnir mjög mikilvægu hlutverki í undirbúningnum og styður vel við hópinn.“

„Ef hann stendur sig áfram vel þá á hann góðan möguleika á að halda sæti sínu í ladnsliðinu því hann er klárlega annar okkar tveggja bestu markvarða.“

Guðmundur sagði að aðrir markverðir hafi komið til greina, svo sem Ögmundur Kristinsson og Haraldur Björnsson. „En við vorum sammála um að gefa U-21 markverðinum tækifæri á að spila með A-landsliðinu og kynnast því umhverfi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×