Lífið

Kveikti bál í Brynhildi

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Brynhildur Guðjónsdóttir
Brynhildur Guðjónsdóttir Fréttablaðið/Daníel
„Mig langaði til að sjá þessa sögu lifna við á sviðinu,“ segir Ólafur Egill Egilsson, höfundur leikgerðar af Karitas án titils eftir Kristínu Marju Baldursdóttur, sem sett verður upp á fjölum Þjóðleikhússins í haust.

„Þetta er áhrifamikil og dramatísk saga, bæði um samfélagslegar hræringar og hræringar hjartans,“ bætir Ólafur við.

„Þetta er kvennasaga, jú, en kannski fyrst og fremst einstaklingssaga – um baráttuna fyrir því að ráða lífi sínu – frelsið og helsið í tilverunni.“

Harpa Arnardóttir kemur til með að leikstýra verkinu, en Brynhildur Guðjónsdóttir leikur titilhlutverkið.

Ólafur Egill Egilsson útilokar ekki að skrifa leikgerð upp úr Óreiðu á striga. Fréttablaðið/Valli
„Einhvern veginn höguðu örlögin því þannig að ég hafði ekki lesið bókina, svo ég las leikgerðina hans Ólafs fyrst og kynntist sögunni þannig. Leikgerðin er algjörlega frábær og hún kveikti bál í mér. Óli er frábær sviðsarkítekt og náttúrulega penni og hann skrifar gagngert inn á svið, en í því felst mikil fullnægja fyrir leikara, að verkið sé skrifað af einhverjum sem skilur leikhús svona vel. Leikgerðin er bæði ljóðræn og unnin af mikilli virðingu fyrir höfundarverki Kristínar Marju,“ útskýrir Brynhildur sem hlakkar til að takast á við verkefnið. 

„Ég hef gert þetta svona undanfarin ár, tekið að mér eitt hlutverk og reynt að þjóna því vel.“ 

Brynhildur leikur nú í Furðulegu háttalagi hunds um nótt í Borgarleikhúsinu, í fyrra lék hún í Gullregni Ragnars Bragasonar og á næsta leikári er það Karitas.

„Leikgerðin er búin til af svo miklu næmi og þetta er manneskjusaga. Tilfinningarnar eru stórar og togstreitan mikil.“

Brynhildur segir aðspurð að fólk hafi alltaf misjafnar skoðanir á því þegar bók er leikgerð.

„Það sem við setjum á svið er sjálfstætt listaverk. Leikhús lýtur allt öðrum lögmálum en skáldsagan og ég hlakka bara til að takast á við þetta skemmtilega en krefjandi verkefni.“

Ólafur Egill útilokar ekki að hann muni skrifa leikgerð upp úr sjálfstæðu framhaldi sögunnar um Karitas, Óreiðu á striga. 

„Við sjáum hvernig þetta fer, en það gæti bara vel verið ef við náum til fólksins.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.