Fótbolti

Villas-Boas: Nú verða hin liðin bara að tapa stigum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson hleypur til baka eftir að hafa jafnað metin í 2-2.
Gylfi Þór Sigurðsson hleypur til baka eftir að hafa jafnað metin í 2-2. Mynd/AFP
Gylfi Þór Sigurðsson bjargaði stigi í kvöld fyrir Andre Villas-Boas og lærisveina hans í Tottenham þegar Chelsea og Tottenham gerðu 2-2 jafntefli á Stamford Bridge í ensku úrvalsdeildinni. Gylfi Þór kom inn á sem varamaður og skoraði jöfnunarmarkið tíu mínútum fyrir leikslok.

„Við jukum hraðann í seinni hálfleik og spiluðum þá mjög vel. Það var erfitt að ráða við skapaandi sóknarleik Chelsea í þessum leik en við náðum góðum sóknum og sköpuðum okkar færi," sagði Andre Villas-Boas við BBC eftir leikinn.

„Nú verða hin liðin bara að tapa stigum en við verðum að einbeita okkur að því að klára okkar leiki. Það getur allt gerst í ensku úrvalsdeildinni og við höldum í vonina," sagði Villas-Boas. Tottenham er í 5. sætinu, einu stigi á eftir Arsenal og þremur stigum á eftir Chelsea, þegar aðeins tvær umferðir eru eftir af ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili. Fjögur efstu sætin gefa sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.

„Markið hans Adebayor var ótrúlegt og hann átti frábæran leik. Hann átti svo sannarlega skilið að vera valinn maður leiksins," sagði Villas-Boas en Emmanuel Adebayor lagði upp mark Gylfa með laglegri hælsendingu.

„Við fundum meira pláss á síðustu tuttugu mínútunum og stjórnuðum þá leiknum. Það var frábært hjá strákunum að halda áfram til enda," sagði Villas Boas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×