Innlent

Húsvörðurinn yfirfór reykskynjara í gærkvöldi

Stefán Árni Pálsson og Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Íbúð Helgu fylltist af reyk þannig að hjónin settu handklæði fyrir hurðina og fóru út á svalir.
Íbúð Helgu fylltist af reyk þannig að hjónin settu handklæði fyrir hurðina og fóru út á svalir. mynd/daníel
Helga Reinharðsdóttir býr á annarri hæð, beint á móti íbúðinni sem eldur kom upp í við Írabakka í morgun. Flytja þurfti fjóra á slysadeild vegna reykeitrunar. Einn er í lífshættu eftir brunann.

„Maðurinn minn vakti mig. Hann vaknaði við hljóð úr reykskynjara og öskur í konunni hérna á móti. Hún komst ekki út,“ segir Helga í samtali við Vísi, en hún segist ekki hafa séð neitt þegar hún kíkti fram á stigagang.

„Það var það mikill reykur að ég sá ekki neitt. Ég hélt fyrst að það væri slökkt á ganginum. Og við komumst ekki út.“

Helga og eiginmaður hennar sáu glitta í nágrannakonuna í dyrunum og ætluðu að hjálpa en þurftu að snúa við vegna reyksins.

„Dóttir hennar dró hana fram á gang, og svo veit ég að nágranni minn reyndi að fara yfir til þeirra og hjálpa. Ég veit ekki hvort hann komst. Ég held hún hafi fengið reykeitrun og kona nágrannans líka.“

Stigagangurinn fylltist af reyk.mynd/daníel
Íbúð Helgu fylltist af reyk þannig að hjónin settu handklæði fyrir hurðina og fóru út á svalir. Hún segir slökkviliðið hafa verið mjög fljótt á staðinn.

„Þeir fóru inn svalamegin, svo komu þeir með reykræstigræjur hérna strax í dyrnar og reykræstu. Svo fóru þeir að tæma íbúðirnar. Fólkið uppi komst náttúrlega ekkert út.“

Helga segir að um sig hafi gripið skelfing. „Auðvitað gerir það það. Hér er allt fullt af börnum á ganginum, og þrjú lítil börn hérna uppi. Það voru allir reykskynjarar pípandi. Húsvörðurinn yfirfór þá alla bara í gærkvöldi og skipti um rafhlöður. Þegar ég vaknaði hélt ég að eitt batteríið hefði klikkað þar til við fórum fram og sáum reykinn.“


Tengdar fréttir

Einn í lífshættu eftir eldsvoða í Breiðholti

Fjórir voru fluttir á slysadeild eftir eldsvoða í fjölbýlishúsi í Breiðholti undir morgun og eru tveir þeirra komnir á gjörgæsludeild. Annar þeirra er í lífshættu vegna brunasára og reykeitrunar, en hinn þarf að dvelja þar vegna reykeitrunar.

Mæðgur vel svartar af reyk

Íbúð í fjölbýlishúsi við Írabakka í Breiðholti er gjörónýt eftir bruna í nótt. Fjórir á slysadeild vegna reykeitrunar.

Hlupu út úr brennandi húsi

Skelfing greip um sig meðal íbúa í fjölbýlishúsi við Írabakka 30 í Reykjavík laust fyrir klukkan fimm í morgun þegar mikinn reyk tók að leggja um stigaganginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×