Innlent

Mæðgur vel svartar af reyk

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Íbúar fjölbýlishúss við Írabakka í Breiðholti voru í stórhættu þegar eldur kom upp í íbúð sem er á annarri hæð. Flytja þurfti fjóra á slysadeild vegna reykeitrunar. Einn er í lífshættu eftir brunann. Íbúar á efri hæðum voru lokaðir inni vegna reyks.

„Þegar við komum upp stigann koma á móti okkur mæðgur sem voru í íbúðinni sem logaði í. Þær voru vel svartar af reyk. Það var tekið við þeim og þær fluttar á slysadeild. Eldurinn var staðbundinn en íbúðin er mjög illa farin og líklega ónýt,“ sagði Þórir Steinarsson, varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.

Allt tiltækt slökkvilið höfuðborgarsvæðisins tók þátt í aðgerðum í nótt. Bruni hafði komið upp í verslun í Breiðholti fyrr í nótt. Slökkvilið var að ljúka störfum þar þegar tilkynnt var um brunann í Írabakka.

„Um leið og við gátum þá reykræstum við stigaganginn. Íbúar voru lokaðir inni í íbúðum sínum meðan og voru beðnir um að vera inni. Þegar við vorum búnir að reykræsa þá fluttum við fólkið í strætó meðan við vorum að klára að hreinsa,“ sagði Þórir. „Þetta er altjón eins og við segjum. Íbúðin er ónýt þannig, það þarf að vinna hana alla upp.“

Slökkvistarf gekk vel að sögn Þóris.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×