Enski boltinn

Lewandowski komst ekki til Blackburn vegna Eyjafjallajökuls

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Sam Allardyce, fyrrverandi stjóri Blackburn, segir að í sinni stjórnartíð þar hafi félagið hafnað tækifæri að kaupa Robert Lewandowski frá Lech Poznan í Póllandi.

Það var árið 2010 og Lewandowski fór að lokum til Dortmund, þar sem hann hefur slegið í gegn. Hann skoraði öll fjögur mörkin í 4-1 sigri liðsins á Real Madrid í undanúrslitaleik liðsins í vikunni.

„Það er rétt,“ sagði Allardyce sem er nú stjóri West Ham. „Njósnarar okkar vildu ólmir fá hann en því miður gekk það ekki eftir. Ég held að stjórnin hafði sett sig á móti því að borga þá upphæð sem farið var fram á.“

„Ég held að félagið hafi viljað þrjár eða fjórar milljónir evra fyrir hann. En félagið hafði ekki mikið á milli handanna. Ég sá hann spila en náði ekki að tala við hann.“

„Ég held að umboðsmaðurinn hans hafi sagt þá að hann gæti ekki komið til Englands út af öskuskýinu. Hann er líklega um 40 milljóna evra virði í dag.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×