Enski boltinn

Wenger ætlar ekki að bjóða aftur í Suarez

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, segist opinn fyrir þeim möguleika að styrkja leikmannahóp félagsins í janúar. Hann ætlar þó ekki að bjóða aftur í Luis Suarez.

Arsenal er á toppi ensku úrvalsdeildarinnar sem stendur en fram undan er spennandi titilbarátta á síðari hluta tímabilsins.

Olivier Grioud hefur verið helsti sóknarmaður Arsenal á tímabilinu til þessa og er ekki ólíklegt að Wenger vilji veita honum meiri stuðning.

Wenger reyndi að kaupa Suarez frá Liverpool í sumar en Úrúgvæinn gerði nýlega nýjan samning við félagið. Wenger segist hafa gefið upp alla von um að fá hann. „Við munum ekki gera annað tilboð,“ sagði hann.

„En við erum að fylgjast með markaðnum eins og svo mörg önnur félög. Ef eitthvað sérstakt kemur upp munum við skoða það.“

„Það er þó engin örvænting því hópurinn okkar er breiður. Við skiptum til að mynda út þremur miðvallarleikmönnum á milli leikjanna gegn West Ham og Newcastle en vorum engu að síður með mjög sterk lið í þessum leikjum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×