Innlent

Stjórnarflokkar enn taldir bera ábyrgð á efnahagshruni

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Kjósendur telja viðskiptabankana bera mesta ábyrgð á efnahagshruninu
Kjósendur telja viðskiptabankana bera mesta ábyrgð á efnahagshruninu Mynd/Vilhelm Gunnarsson
„Sýn Íslendinga á það hverjir ollu hruninu hefur ekki breyst frá árinu 2009 til 2013. En þeim virðist að einhverju leyti vera runnin reiðin því nú telur fólk alla aðila bera minni ábyrgð en árið 2009,“ segir Hulda Þórisdóttir lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.

Hulda kannaði hverjum Íslendingar kenna um efnahagshrunið og er rannsóknin unnin úr íslensku kosningarannsókninni sem gerð er eftir hverjar Alþingiskosningar. Hún sýnir að kjósendum finnst viðskiptabankarnir, Fjármálaeftirlitið, Seðlabanki, Sjálfstæðisflokkur og ríkisstjórn Geirs H. Haarde bera mesta ábyrgð á hruninu, bæði árið 2009 og 2013.

Það sýnir að kjósendur hafa engu gleymt og finnst stjórnarflokkarnir enn bera töluverða ábyrgð. Út frá þeim niðurstöðum rannsakaði Hulda næst af hverju Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur voru engu að síður kosnir aftur til valda árið 2013.

Hulda ÞórisdóttirMynd/Daníel
„Árið 2009 kaus fólk út frá liðnum atburðum og það var brostið traust. Árið 2013 kaus fólk upp á framtíðarvæntingar. Samkvæmt rannsókninni fannst kjósendum skuldavandi heimilanna vera mikilvægasta pólitíska verkefnið fyrir kosningarnar og kjósendur voru jafnframt mjög ánægðir með framgöngu Framsóknarflokksins í Icesave-málinu. Þannig að flokkurinn var með kosningaloforð sem rímaði við væntingar kjósenda og þar að auki ákveðinn trúverðugleika eftir Icesave,“ segir Hulda.

Samkvæmt niðurstöðum Huldu fannst kjósendum allra flokka viðskiptabankarnir bera mesta ábyrgð. En kjósendur Sjálfstæðisflokksins eru þó líklegastir til þess að leita utanaðkomandi orsaka og kenna aðstæðum á erlendum mörkuðum og erlendum fjárfestum um efnahagshrunið. Kjósendur Vinstri grænna setja aftur á móti almennt meiri ábyrgð á hina ýmsu aðila og þá sérstaklega innlenda aðila og stofnanir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×