Innlent

"Íslendingar eiga að bjóða Snowden hæli“

Heimir Már Pétursson skrifar
Íslendingar ættu að svara kalli Snowdens um hæli segir Kristinn Hrafnsson.
Íslendingar ættu að svara kalli Snowdens um hæli segir Kristinn Hrafnsson.
Kristinn Hrafnsson talsmaður WikiLeaks segir fagnaðarefni að Rússar hafi orðið við ósk uppljóstrans Edward Snowden um tímabundið hæli í Rússlandi, eins og staðfest var í morgun. Hann hafi verið strandaglópur á alþjóðaflugvellinum í Moskvu eftir að Bandaríkjamenn ógiltu vegabréf hans, en fjögur lönd hafi boðið honum varanlegt hæli.

„Að sjálfsögðu væri óskandi að Evrópuríki sýndu manndóm og byðu honum hæli þar sem þakklætisvott fyrir allar þessar mikilvægu upplýsngar sem hann hefur veitt almenningi um eina viðamestu aðför að persónuvernd á síðari tímum,“ segir Kristinn. Og þá ekki hvað síst íslensk stjórnvöld.

„Það ætti að heyra undir íslensk stjórnvöld að svara kalli og menn skulu minnast þess að Ísland var fyrsta landið sem hann nefndi þegar hann steig fram sem óska dvalarstað,“ áréttar hann.

Kristinn segir stöðu Snowden nú mun betri en þegar hann var strandaglópur á Moskvuflugvelli.

„Á meðan reynt er að vinna úr þessum möguleikum sem hann hefur um að fara á annan stað þar sem hann getur verið í skjóli sem pólitískur flóttamaður, sem hann vissulega er,“ segir Kristinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×