Erlent

Óskar eftir aðstoð við frekari leit í skipinu

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Ricardo Martinelli, forseti Panama, um borð í smyglskipinu.
Ricardo Martinelli, forseti Panama, um borð í smyglskipinu. Nordicphotos/AFP
Engar skýringar hafa enn fengist á því hvers vegna Kúbustjórn sendir fleiri tonn af ævafornum vopnabúnaði til viðgerðar í Norður-Kóreu.

Einfaldara hefði væntanlega verið að fá viðgerðarmenn og varahluti senda frá Norður-Kóreu. Það hefði ekki verið brot á alþjóðlegu vopnaviðskiptabanni við Norður-Kóreu.

Kúbustjórn hefur upplýst að um borð í skipinu, sem kyrrsett var í Panama í síðustu viku, séu tvö rússnesk loftvarnarkerfi, annað af gerðinni Volga en hitt af gerðinni Pechora. Þá hafi níu flugskeyti verið um borð í skipinu, en þau hafi verið í pörtum. Loks hafi þarna leynst tveir þotuhreyflar.

Það var Ricardo Martinelli, forseti Panama, sem skýrði frá því á þriðjudag að um borð í skipinu hafi fundist flugskeyti og annar vopnabúnaður falinn í gámum undir sykurfarmi í lestum skipsins.

Hann sagði að upphaflega hefðu yfirvöld í Panama talið að fíkniefni kynnu að leynast í skipinu. Þess vegna var farið um borð til að leita.

Síðan 2006, eða eftir að Norður-Kórea hóf tilraunir með kjarnorkusprengjur, hefur öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fjórum sinnum samþykkt refsiaðgerðir gegn Kúbu, og urðu þær æ harðari eftir því sem þeim fjölgaði.

Staðan nú er sú að öllum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna er bannað selja eða flytja vopn eða vopnabúnað til Norður-Kóreu, eða útvega Norður-Kóreu vopn með öðrum hætti, hvort heldur er beint eða óbeint. Undanskilin eru þó smærri vopn á borð við skammbyssur og riffla.

Kúbustjórn sendi frá sér tilkynningu þar sem hún sagðist hvergi ætla að hvika frá skuldbindingum sínum við alþjóðalög, frið og kjarnorkuafvopnun.

Hugh Griffith hjá SIPRI, alþjóðlegu friðarrannsóknastofnuninni í Stokkhólmi, segir þetta atvik beina athygli heimsins að samskiptum Kúbu og Norður-Kóreu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×