Enski boltinn

Mancini: Þreytumerki á United

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Roberto Mancini, stjóri Manchester City, vonar að erkifjendurnir og grannarnir í United muni gefa eftir á lokaspretti tímabilsins í ensku úrvalsdeildinni.

United er nú tólf stigum á undan City á toppi deildarinnar en liðið féll þó nýverið úr leik í Meistaradeild Evrópu og missti niður 2-0 forystu gegn Chelsea í ensku bikarkeppninni.

„Fótboltinn er skrýtinn. Stundum tapar maður leik og maður veit ekki af hverju. Kannski einum, tveimur eða þremur leikjum. Við náðum bara í tvö stig af níu mögulegum gegn Liverpool, Southampton og QPR fyrir stuttu síðan," sagði Mancini við enska fjölmiðla.

„Untied hefur verið að spila mjög vel þetta tímabilið. Liðið spilaði frábærlega gegn Real Madrid. En á þessum tímapunkti geta öll lið fundið fyrir þreytu eftir átta mánaða keyrslu."

Mancini viðurkennir að hann hafi gert mistök með því að kaupa ekki varnarmann þegar að Vincent Kompany meiddist í leik gegn Stoke í lok janúar.

„Við vissum að það væri vandamál en það voru fjórir dagar eftir af glugganum. Við reyndum að kaupa varnarmann og fengum tækifæri til þess. En við töldum ekki að Vinny yrði frá í 45 daga."

„Ég held að hann muni spila aftur á tímabilinu. Hann er byrjaður að hlaupa og ég vona að hann verði klár fyrir leikinn gegn Newcastle," sagði Mancini en sá leikur fer fram eftir tvær vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×