Enski boltinn

Gylfi: Erum ekki að hugsa um titilinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gylfi skoraði tvö mörk í 2-0 sigri á Norwich fyrir tíu dögum.
Gylfi skoraði tvö mörk í 2-0 sigri á Norwich fyrir tíu dögum. Nordicphotos/AFP
Gylfi Þór Sigurðsson og félagar hjá Tottenham mæta Aston Villa í enska deildabikarnum í knattspyrnu í kvöld.

Spurs hefur unnið sigur í fjórum af fyrstu fimm leikjum sínum og situr í öðru sæti deildarinnar. Aðeins markamunur skilur að Lundúnaliðin Spurs og Arsenal.

Gylfi Þór hefur komið við sögu í fjórum leikjum Spurs í deildinni af fimm. Sá eini þar sem Gylfi var áhorfandi var einmitt tapleikurinn gegn Arsenal.

Gylfi segir í samtali við The Sun að markmið liðsins sé skýrt. Að tryggja sér sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.

„Fyrst erum við að hugsa um leikinn gegn Villa og að ná að jafna okkur fyrir hann,“ sagði Gylfi. Spurs lagði Cardiff 1-0 í deildinni á sunnudaginn með marki Paulinho í viðbótartíma.

„Við vonumst til að vera ennþá á meðal þátttökuliða í deildabikarnum á miðvikudaginn. Þá getum við farið að hlakka til leiksins gegn Chelsea,“ segir Gylfi. Lundúnaslagurinn fer fram á White Hart Lane í hádeginu á laugardaginn.

„Það mikilvægasta fyrir okkur er að halda sigurgöngunni áfram og ganga úr skugga um að sæti í Meistaradeildinni verði okkar,“ segir Gylfi. Markmiðin séu skýr.

„Það er það sem við ætlum okkur. Titilbarátta er ekki í huga okkar núna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×