Enski boltinn

Glæsimark Aguero gegn United

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sergio Aguero tryggði Manchester City sætan útisigur á grönnum sínum í United á Old Trafford í gærkvöldi. Aguero hafði aðeins verið inná vellinum í sjö mínútur þegar hann reiddi til höggs.

Þrátt fyrir að leiknum hafi lyktað með 2-1 sigri City þá voru það gestirnir sem skoruðu öll þrjú mörkin. Eftir að James Milner kom City yfir á 52. mínútu varð Vincent Kompany fyrir því óláni að skora sjálfsmark.

Reyndar fagnaði Phil Jones markinu sem óður væri. Hefði hins vegar ekki verið fyrir bakið á Kompany hefði skalli Jones fyrir opnu marki farið framhjá.

Fátt benti til annars en að liðin myndu sættast á stórmeistarajafntefli þegar Sergio Aguero kom inná fyrir Samir Nasri á 71. mínútu. Sjö mínútum síðar spólaði hann sig í gegnum vörn United áður en hann hamraði boltann upp í nærhornið. Stórkostlegt mark og ekki í fyrsta skipti sem Aguero kemur City til bjargar.

Forskot United á City er eftir sem áður tólf stig og liðið því með níu fingur á titlinum eftirsótta þegar sjö umferðir eru eftir. Ef fram heldur sem horfir landar liðið því sínum 20. Englandsmeistaratitli í maí.

Leikurinn í gær var sá síðasti í 31. umferð. Hægt er að sjá samantekt frá öllum leikjum helgarinnar með því að smella hér.

Sportið á Vísi er komið á Facebook. Fylgust með.


Tengdar fréttir

Agüero tryggði City sigur í borgarslagnum

Forysta Manchester United á toppi ensku úrvalsdeildarinnar minnkaði í tólf stig eftir að núverandi meistarar, Manchester City, hafði betur í grannaslag liðanna í kvöld, 2-1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×