Innlent

Skipulögðu fyrrverandi bæjarstjóra út

Haraldur Guðmundsson skrifar
Bæjarstjóri sem sagt var upp fékk sviðsstjórastarf hjá Kópavogsbæ í kjölfarið en nú er ekki talin þörf fyrir það starf.
Bæjarstjóri sem sagt var upp fékk sviðsstjórastarf hjá Kópavogsbæ í kjölfarið en nú er ekki talin þörf fyrir það starf. Fréttablaðið/Pjetur
Meirihluti bæjarstjórnar Kópavogsbæjar ákvað á þriðjudag að leggja niður stöðu sviðsstjóra sérstakra verkefna sem Guðrún Pálsdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri, hefur gegnt.

Guðrún hafði sinnt starfinu síðan í mars á þessu ári þegar sviðið var stofnað. Þá hafði hún verið á bæjarstjóralaunum í heilt ár án þess að sinna formlegum verkefnum fyrir bæinn.

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi, segir að ákvörðunin um að leggja sviðið niður byggist á stjórnsýsluúttekt sem bærinn fékk Capacent til að vinna og var kynnt í bæjarstjórn í nóvember 2012.

„Ákvörðunin tengist stjórnsýslubreytingu sem tók á ýmsum þáttum til að einfalda og skilgreina betur skipurit bæjarins og draga úr kostnaði. Einn þáttur í þessum skipulagsbreytingum var að staða sviðsstjóra sérstakra verkefna var lögð niður. En það er bara einn þáttur í miklu stærri heildarmynd,“ segir Ármann.

„Þetta er túlkun Ármanns á stjórnsýsluúttektinni en í vor túlkaði hann þessa sömu úttekt á þann veg að það ætti að stofna þessa sviðsstjórastöðu og því ákvað meirihluti Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Lista Kópavogsbúa að stofna þetta svið,“ segir Guðríður Arnardóttir, oddviti Samfylkingarinnar í bænum.

Guðríður segir að hún hafi lengi gagnrýnt að ekki hafi legið fyrir hvaða verkefnum Guðrún sinnti í starfi sínu sem sviðsstjóri.

„Ég hef ekki fengið nein svör um það, hvorki munnleg né skrifleg. Þó það sé búið að leggja stöðuna niður vil ég vita í hvað peningar skattgreiðenda í Kópavogi hafa farið undanfarna mánuði í tengslum við þessa stöðu,“ segir Guðríður.

Spurður um hvaða verkefni Guðrún hafi sinnt segir Ármann að hann hafi áður skýrt frá því í bæjarráði Kópavogs.

„Verkefnin tengdust stjórnsýsluúttektinni sjálfri auk þess sem Guðrún kom að ársreikningsgerð og fleiri verkefnum,“ segir Ármann.

Var bæjarstjóri í tuttugu mánuði

Guðrún Pálsdóttir var ráðin sem ópólitískur bæjarstjóri Kópavogsbæjar hinn 16. júní 2010 á grundvelli meirihlutasamstarfs Samfylkingar, Lista Kópavogsbúa, Næst besta flokksins og Vinstri grænna.

Hún var áður sviðsstjóri tómstunda- og menningarsviðs bæjarins. Guðrún gegndi stöðu bæjarstjóra í um tuttugu mánuði, eða til febrúar 2012. Meirihlutinn hafði mánuði áður ákveðið að segja Guðrúnu upp störfum en áður en af því varð sprakk meirihlutasamstarfið.

Ármann Kr. Ólafsson varð bæjarstjóri nýs meirihluta og þá var gert samkomulag við Guðrúnu um að hún yrði áfram á bæjarstjóralaunum til 1. september 2012. Þá átti hún að taka við starfi sviðsstjóra á nýju sviði menningarmála hjá Kópavogsbæ.

Stjórnsýsluúttekt Capacent, sem greint er frá í fréttinni, mælti hins vegar gegn því að sviðið yrði stofnað og því kom Guðrún ekki til starfa í byrjun september. Hálfu ári síðar tók hún síðan við starfi sviðsstjóra sérstakra verkefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×