Lífið

Lífið streymir fram hjá

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Fjöldi fólks lagði leið sína í árgangagönguna í fyrra.
Fjöldi fólks lagði leið sína í árgangagönguna í fyrra. Mynd/Reykjanesbær
„Ég er fæddur árið 1956 og bið mín eftir að komast inn í gönguna verður sífellt lengri. Hún er alltaf að styttast leiðin að samkomusvæðinu þar sem við endum gönguna,“ segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, léttur í bragði um svokallaða Árgangagöngu sem farin er árlega á Ljósanótt í Reykjanesbæ.

Árni Sigfússon
„Hugmyndin byggir á því að við erum svo heppin að eiga hér Hafnargötuna. Gatan er númeruð frá 1 og upp í 100 og árgangar koma saman við húsnúmer síns árgangs. Þannig að 56-módelið mætir við Hafnargötu 56 og 90-módelið mætir við Hafnargötu 90 og svo framvegis,“ útskýrir Árni.

Árgangagangan hefur smám saman verið að aukast í öllum umsvifum. 

„Gangan hefst með lúðrablæstri og skrúðgöngumeisturunum sem arka frá efsta hluta götunnar og niður Hafnargötu. Smám saman bætist í og hver árgangur kemur inn í gönguna fyrir sig,“ heldur Árni áfram. 

„Það er mjög merkilegt hvernig þú horfir eiginlega á lífið streyma fram hjá. Gangan hefst á þeim yngstu, sem eru kannski nýfermdir unglingar sem finnst þetta allt hálfasnalegt. Svo kemur yngra fólk, svo mæður og foreldrar með barnavagnana. Þá næst kemur í gönguna óræður aldur þar sem fólk er búið að losa sig við börnin, spengilegt og flott. Þar á eftir afar og ömmur með barnabörnin í vögnum, og svo eldist hópurinn og það fækkar í honum – hópurinn breytist. Þetta er hreinlega upplifun að fylgjast með og taka þátt og átta sig á hvar maður er að koma inn í gönguna,“ segir Árni jafnframt. 

Gangan endar svo á samkomusvæðinu Bakkalág, þar sem hópurinn sameinast og árganginum sem verður fimmtugur á árinu er sérstaklega fagnað.

 

„Bakkalág er lágin við Hafnarbakkann, sem hefur nýlega hlotið þetta tvíræða nafn. Þar var saltfiskur áður lagður út til þurrkunar,“ bætir Árni við.

Forseti bæjarstjórnar ávarpar svo hópinn.

„Þetta er gleðileg stund og fólk nýtur hennar. Margir árgangar hittast kannski kvöldið áður og halda glaðan dag,“ segir Árni að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.