Lífið

Fyndið ef barnið fæðist meðan ég er í beinni

Ása Ottesen skrifar
Poppsöngvarinn Friðrik Dór Jónsson mun stýra upphafsþætti Stöðvar 3 sem fer í loftið kl 21.00 á laugardaginn.
Poppsöngvarinn Friðrik Dór Jónsson mun stýra upphafsþætti Stöðvar 3 sem fer í loftið kl 21.00 á laugardaginn. fréttablaðið/ernir
„Ég vona svo sannarlega að þetta verði ekki vandræðalegt en það getur vel verið að svo fari,“ segir söngvarinn og lagahöfundurinn Friðrik Dór Jónsson, sem stjórnar opnunarþætti nýrrar sjónvarpsstöðvar á morgun.



Nýja sjónvarpsstöðin nefnist Stöð 3 og fer í loftið klukkan 21 annað kvöld. Á stöðinni verður boðið upp á innlent og erlent sjónvarpsefni fyrir alla aldurshópa. „Það var haft samband við mig og ég beðinn um að stjórna opnunarþætti stöðvarinnar. Þetta er algjör frumraun fyrir mig þar sem ég hef ekki stjórnað sjónvarpsþætti áður.

Ég fiktaði aðeins við þáttagerð þegar ég var í menntaskóla, þá vorum við vinirnir að taka upp grínsketsa. Síðan þá hef ég ekkert komið nálægt þáttagerð. Mér finnst þetta vera ágætis tækifæri fyrir mig og ég ætla bara að hafa gaman af þessu,“ segir hann.

Spurður nánar út í þáttinn segir Friðrik að þetta verði í megindráttum spjallþáttur þar sem hann tekur mann og annan tali.

„Ég mun spjalla við gesti og gangandi og kynna dagskrá stöðvarinnar. Það verða einnig tónlistaratriði og fleira skemmtilegt. Þetta verður fjörugur þáttur og ég ætla að vera mjög hress,“ segir Friðrik og hlær.



Friðrik Dór slær ekki slöku við þessa dagana en hann syngur lagið Glaðasti hundur í heimi, sem situr í efsta sæti vinsældarlista Rásar 2, stundar nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands og á von á sínu fyrsta barni eftir rúmlega viku.

„Föðurhlutverkið leggst mjög vel í mig. Það er allt klárt fyrir komu barnsins. Ég hef litlar áhyggjur af því að barnið fæðist á meðan ég er í beinni útsendingu, en ef það skyldi gerast þá væri það bara frekar fyndið,“ segir hann að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.