Innlent

Fjölskylda tekst á við áföllin af æðruleysi

Karen Kjartansdóttir skrifar
Mikil áföll hafa dunið yfir fjölskylduna að undanförnu en Katrín segir léttbærara að takast á við sársauka af jákvæðni.
Mikil áföll hafa dunið yfir fjölskylduna að undanförnu en Katrín segir léttbærara að takast á við sársauka af jákvæðni.
„Það er ekki hægt að stjórna öllu því sem gerist en það er hægt að hafa stjórn á því hvernig tekist er á við atburðina. Mín reynsla er sú að léttbærara er að taka temja sér jákvæðni,“ segir Katrín Björk Baldvinsdóttir.

Eiginmaður hennar, Eyþór Már Bjarnason, lenti í alvarlegu vélhjólaslysi í Mosfellsdal á sunnudaginn. Honum er enn haldið sofandi en Katrín segir mikilvægt að líkami hans nái að jafna sig sem best áður en hægt er að vekja hann. Hún sé ekki orðin óþreyjufull enda geri hún sér grein fyrir því að langt og strangt ferli er eftir.

Aðaláverkarnir sem Eyþór Már fékk eru í andliti en aðgerðin sem hann fór í tók nær ellefu klukkustundir. Aðgerðin mun hafa tekist nokkuð vel því Katrín segir lítið sjást á honum á eftir miðað við þá miklu áverka sem hann fékk. Auk þess fékk hann loftbrjóst og er með dren úr lunganu, brotið bringubein, rifbein og vinstra herðablað. Þá brotnaði hann á vinstri úlnlið og þurfti að gangast undir aðgerð vegna þessa. Að öðru leyti virðist í lagi með hann. Engar breytingar sjást á heila, hálsinn er óskaddaður og hann getur hreyft alla útlimi.

Sjálf glímir Katrín við brjóstakrabbamein sem hún greindist með í mars. Hún fór í uppskurð fimm dögum áður en slysið varð og er að ljúka lyfjameðferð en hennar bíður þó geislameðferð og hugsanlega brjóstnám.

„Þetta gengur samt allt vel,“ segir Katrín æðrulaus. Þau Eyþór Már eiga tvenna tvíbura, það er að segja dreng og telpu sem fæddust 2007 og dreng og telpu sem fæddust 2011. Eldri börnin voru upphaflega þríburar en eitt barnanna fæddist andvana. „Ég fékk góða þjálfun við að takast á við áföll eftir þá meðgöngu,“ segir Katrín og bætir við að lífsspeki skáldsagnapersónunnar Pollýönnu, sem alltaf reyndi að horfa á það jákvæða í lífinu, hafi reynst henni vel í raunum þá rétt eins og nú.

„Við eigum marga góða að og höfum fengið margar fallega kveðjur. Í einu skiptin sem ég hef beygt af er þegar ég hef séð fallegar kveðjur á Facebook. Ég verð eiginlega gáttuð þegar ég sé hlýhug fólks.“

Fjölskylda þeirra Eyþórs Márs og Katrínar Bjarkar hefur stofnað styrktarreikninga til að að létta undir með þeim fjárhaglega í erfiðleikunum. Reikningurinn er: 0315-13-110046 og kt. 270645-4539. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×