Íslenski boltinn

Vill helmingsafslátt af nammi vestanhafs

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Chuck spilaði á sínum tíma með Chivas í MLS-deildinni. Í dag njóta Þórsarar góðs af framherjanum markheppna.
Chuck spilaði á sínum tíma með Chivas í MLS-deildinni. Í dag njóta Þórsarar góðs af framherjanum markheppna. Nordicphotos/Getty
„Ég hef notið tímans hér á landi þótt þetta sé öðruvísi en ég er vanur,“ segir Chukwudi Chijindu, framherji Þórs á Akureyri sem allajafna gengur undir nafninu Chuck.

Bandaríkjamaðurinn gekk í raðir Þórs um mitt tímabil í fyrra. Fimm mörk í níu leikjum spiluðu stóran þátt í því að Akureyrarliðið vann sér sæti á meðal þeirra bestu á ný. Þrátt fyrir frábæra frammistöðu varð ekki ljóst fyrr en á vormánuðum hvort Chuck myndi snúa aftur til Akureyrar í sumar.

„Ég fór heim til Kaliforníu að meta möguleika mína. Í fullri hreinskilni gerði Þór mér ekki ljóst að þeir vildu fá mig aftur. Maður getur ekki setið og beðið eftir að hlutirnir gerist í fótboltaheiminum,“ segir framherjinn 27 ára. Hann var þó mættur fyrir fyrsta leik Þórs í deildinni og hefur skorað sex mörk í tólf leikjum.

Chuck segir það alltaf hafa verið draum sinn að spila sem atvinnumaður í íþróttinni sem hann ann.

„Þannig er það þegar maður elst upp. Svo þegar maður verður eldri fer maður að meta hvort það sé raunsætt markmið eða draumur,“ segir Chuck. Alls staðar þar sem hann hafi spilað hafi hann verið stjörnuleikmaður liðsins eða einn þeirra. Honum hafi gengið vel í háskólaboltanum með Connecticut-háskóla.

„Þegar ég stóð jafnfætis þeim bestu í háskólaboltanum áttaði ég mig á því að ég gæti lagt fótboltann fyrir mig,“ segir Chuck, sem lærði sálfræði í háskólanum, enda hafði móðir hans ávallt brýnt fyrir honum gildi menntunar.

Ferðast víða í leit að liði

Chuck komst á samning hjá Chivas í MLS-deildinni og var á mála hjá liðinu í þrjú og hálft ár.

„Ég lærði rosalega mikið sem atvinnumaður í MLS-deildinni. Eina ástæðan fyrir því að ég fór var að ég vildi fá að spila meira og í minni stöðu,“ segir Chuck. Hann sé framherji en hafi verið fullmikið notaður á kantinum vestanhafs. Hann hefur farið á vit ævintýranna víða um Evrópu og reynt fyrir sér hjá félögum í Grikklandi, Kýpur, Sviss og Svíþjóð. Tækifæri hafi verið víða en hann hafi svo lent á Íslandi.

„Strákarnir hafa tekið vel á móti mér. Svo hjálpaði líka að hafa Joe (Funicello) og Josh (Wicks),“ segir Chuck um landa sína hjá Þórsliðinu. „Þegar þú býrð fjarri heimahögunum skilja mann ekki alltaf allir. Þá er gott að eiga vini með svipaðan bakgrunn til að ræða málin við.“

Chuck er samningsbundinn Þórsliðinu út leiktíðina. Hvað við tekur þá veit hann ekki. Hann gæti þó vel hugsað sér að stíga skrefið og reyna fyrir sér í Skandinavíu. Hann viðurkennir að líf fótboltamannsins geti verið erfitt, enda fjarri fjölskyldu og vinum heima á vesturströndinni.

„Það er fórn sem maður færir. Ég er samt sterkur andlega og trúi því að ef þú færir fórnir og leggur hart að þér muni það borga sig á endanum.“

Elskar nammiafsláttinn

Chuck er fljótur til svars þegar hann er spurður að því hvort það séu einhverjar hefðir eða siðir á Íslandi sem hann mundi vilja taka upp vestanhafs.

„Fimmtíu prósenta afsláttur á nammi á laugardögum,“ segir framherjinn hárprúði og hlær. „Ég elska nammi og fer alltaf á laugardögum í nammiland,“ segir Chuck. Þrátt fyrir að Þór ætti útileik gegn Víkingum í gær fór Chuck venju samkvæmt og fjárfesti í sælgæti á laugardaginn.

„Það bíður mín eftir leikinn gegn Víkingum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×