Innlent

Vesturbyggð vill ræða sameiningu við Tálknafjörð

Þorgils Jónsson skrifar
Bæjarráð Vesturbyggðar hefur óskað eftir viðræðum við Tálknafjarðarhrepp um sameiningu sveitarfélaganna.
Bæjarráð Vesturbyggðar hefur óskað eftir viðræðum við Tálknafjarðarhrepp um sameiningu sveitarfélaganna.
Bæjaryfirvöld í Vesturbyggð vilja hefja viðræður við Tálknafjarðarhrepp um sameiningu sveitarfélaga með það að markmiði að kosið verði um sameininguna í sveitarstjórnarkosningum á næsta ári.

Bæjarráð Vesturbyggðar óskaði á síðasta fundi sínum eftir formlegum viðræðum við hreppsnefnd Tálknafjarðar um málið.

Vesturbyggð varð til með sameiningu Patreksfjarðar-, Bíldudals-, Barðastrandar- og Rauðasandshrepps árið 1994, en árið áður höfðu íbúar Tálknafjarðar hafnað sameiningu í kosningum og þeir gerðu slíkt hið sama áður en sameining Vesturbyggðar gekk í gegn.

Árið 2005 var enn á ný kosið og höfnuðu bæði Tálknfirðingar og íbúar Vesturbyggðar sameiningaráformum.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, segir að síðustu ár hafi samstarf milli sveitarfélaganna aukist til muna, meðal annars á sviðum félags- og skipulagsmála.

„Í ljósi þess og þeirrar uppbyggingar sem er að verða hér á sunnanverðum Vestfjörðum er bara eðlilegt að skoða þennan valkost,“ segir hún og bætir við aðspurð að hugur fólks á svæðinu standi til enn frekara samstarfs.

„Já, ekki spurning. Þetta gengur allt út á það að efla bæði sveitarfélögin og bjóða upp á betri þjónustu við íbúana.“

Rekstur Vesturbyggðar gekk lengi illa en viðsnúningur hefur verið síðustu árin, sem Ásthildur segist aðspurð trúa að muni skipta máli í sameiningarþreifingum.

„Já, vafalaust. Við teljum okkur vera orðin sjálfbær í rekstri og sveitarfélagið er sífellt að verða öflugra og tekjugrunnurinn sterkari með öflugra atvinnulífi.“

Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, oddviti hreppsnefndar í Tálknafirði, segir að hreppsnefndin komi ekki saman fyrr en í september og fyrr verði ekki tekin formleg afstaða til óskarinnar.

„Þetta hefur komið til tals annað slagið á samráðsfundum sveitarfélaganna, en mín persónulega skoðun í þessum efnum er að við eigum ekki að hreyfa við neinu nema við höfum íbúana að baki okkur.“

Eyrún segir að íbúaþing verði haldið í bænum í haust og þar muni sameining sveitarfélaganna eflaust koma til tals.

„En samtal er til alls fyrst, og það er aldrei slæmt að ræða saman um þessa hluti. Við eigum mikið samstarf á mörgum sviðum og framhaldið þarf að vega og meta á hlutlægan hátt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×