Innlent

Hanna Birna segir samstöðu um nýtt millidómstig

Jóhannes Stefánsson skrifar
Nefndina skipa Hervör Þorvaldsdóttir, Kristín Edwald, formaður og Hafsteinn Þór Hauksson.
Nefndina skipa Hervör Þorvaldsdóttir, Kristín Edwald, formaður og Hafsteinn Þór Hauksson. Mynd/Innanríkisráðuneytið.
„Með skipan þessarar nefndar erum við að fylgja eftir stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að taka upp millidómstig, bæði í einkamálum og sakamálum, og að Hæstiréttur verði í einni deild,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra.

Hún skipaði nefnd sem hefur það hlutverk að undirbúa að koma á fót þriðja dómstiginu, á milli héraðsdóms og Hæstaréttar.

„Það hefur mikil vinna farið fram á undanförnum árum og það hefur skapast samstaða um að það sé mikils virði að fara í málið,“ segir Hanna Birna.

Hún segir nefndinni ekki ætlað að kanna kosti og galla fyrirkomulagsins heldur hafi ákvörðun verið tekin um millidómstigið af hálfu ríkisstjórnarinnar. „Nú er bara komið að því stigi að velta fyrir sér útfærslunni, fyrirkomulaginu, tímamörkunum, kostnaðinum og svo framvegis,“ segir Hanna.

Hún segir millidómstigið mikilvægt til að koma réttarkerfinu á Íslandi í betra horf. „Þetta er í samræmi við dómstólaskipan í flestum þeim nágrannalöndum sem við berum okkur saman við,“ bætir hún við.

Hanna segir að nýtt dómstig muni líkast til ekki fela í sér mikinn kostnað. „Þetta er ekki talið þurfa fela í sér mikinn kostnað vegna þess að þetta getur líka haft í för með sér ákveðna hagræðingu í dómskerfinu almennt, segir Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×